Hátæknihné Össurar ein athyglisverðasta uppfinning ársins að mati Time

Að mati bandaríska tímaritsins Time er Rheo hátæknihnéð frá Össuri ein af áhugaverðustu uppfinningum ársins 2004 á heimsvísu. Time velur árlega áhugaverðustu nýjungarnar og auk hátænihnésins vekur blaðið m.a. athygli á linsu sem hægt er að græða í augu, myndavél sem hjálpar læknum að sjá bláæðar og HIV próf sem hægt er að taka með munnstroki.

Í tilkynningu frá Össuri segir, að Rheo hnéð, sem er rafeindastýrt gervihné með gervigreind, sé byltingarkennd nýjung á sviði stoðtækni. Unnið hafi verið að þróun og prófunum á hnénu síðastliðin fjögur ár af hópi verkfræðinga hjá Össuri í samvinnu við Massachusetts Institute of Technology í Boston í Bandaríkjunum. Hnéð notar nýja rafafls- og vökvaflæðitækni til að laga hreyfingu að gönguhraða notanda, sem er ný hönnun frá grunni.

Heimasíða Össurar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert