Ekki eru líkur á að íbúar í Kleppsholti geti snúið heim til sín í bráð, að sögn Karls Steinars Valssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns. „Eldurinn virðist enn vera gríðarlegur, þannig að ekki hefur verið tekin ákvörðun um að fólk fái að fara heim,“ segir hann. Allar umferðartakmarkanir eru enn í gildi. „Við munum auðvitað létta þeim um leið og við sjáum okkur fært að gera það,“ segir Karl Steinar. „Þetta er heilmikil röskun.“
Umferðartakmarkanir eru að hluta til vegna aðgerða slökkviliðs, segir Karl Steinar. „Til að mynda eru slöngur á víð og dreif og við getum því ekki leyft umferð bíla um svæðið.“
Starfsfólk Eimskips getur, að sögn Karls Steinars, komist til vinnu með því að fara austan megin við vöruhótelið og gengið þaðan. „Að öðru leyti eru allar þessar takmarkanir í gildi. Ég gæti alveg trúað því að þær verði eitthvað fram eftir degi; að minnsta kosti fram undir hádegi,“ segir hann.
Allar deildir lögreglu eru nú að störfum, enda bætist þetta verkefni við öll hefðbundin verkefni lögreglunnar. Rannsókn á upptökum eldsins er að sjálfsögðu ekki hafin, enda er eldurinn enn mikill.