Tældi 9 ára stúlku upp í bifreið og skildi hana eftir í Skálafelli

Maðurinn tældi stúlkuna inn í bíl sinn á mótum Álfhólsvegar …
Maðurinn tældi stúlkuna inn í bíl sinn á mótum Álfhólsvegar og Bröttubrekku. mbl.is/Júlíus

Níu ára stúlku var rænt í Kópavogi er hún var á leið heim til sín í austurbænum síðdegis í gær. Maður lokkaði hana inn í rauða fólksbifreið sína á Álfhólsvegi með því að þykjast færa henni alvarlegar fréttir af foreldrum hennar í umferðarslysi. Lögreglan leitar nú mannsins en hann fór með stúlkuna út fyrir bæinn og skildi hana síðan eftir í reiðileysi í Skálafelli. Var það henni til happs að jeppamaður var þar á ferð stuttu seinna og kom henni til hjálpar.

Samkvæmt heimildum Fréttavefjar Morgunblaðsins (mbl.is) mun maðurinn hafa fengið stúlkuna upp í bifreiðina með því að tjá henni að móðir hennar hefði þá um daginn látist í umferðarslysi og faðir hennar væri alvarlega slasaður.

Hélt hann síðan sem leið lá út fyrir höfuðborgina og áleiðis upp í Skálafell. Þar skildi hann stúlkuna eftir í myrkri og votviðri en það vildi henni til happs að einhverju seinna átti maður á jeppa leið um og ók hann fram á stúlkuna á Þingvallavegi og kom henni til sinna heima.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Kópavogi átti brottnám stúlkunnar sér stað um klukkan 15:45 í gær. Maðurinn var um tvítugt og á rauðum fólksbíl. Hann ók stúlkunni að afleggjaranum að Skálafelli en þar lenti hann í snjókrapi og lét stúlkuna fara út úr bílnum en ók síðan í burtu og skildi hana eina eftir.

Lögreglan biður þá sem kynnu að geta gefið henni frekari upplýsingar um þetta mál eru beðnir að hringja til hennar í síma 560 30 41.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert