Bush veitir auknu fé til skírlífiskennslu

AP

Bandaríkjaþing samþykkti um síðustu helgi að veita rúmlega 131 milljón dollara til skírlífiskennslu í skólum, og er það aukning um 30 milljónir en þó minna en George W. Bush forseti hafði farið fram á.

Enn er beðið niðurstaðna athugana á því hvort skírlífiskennsla hafi tilætluð áhrif, og er ekki von á þeim fyrr en á þarnæsta ári.

Kennsla í skírlífi felur ekki í sér neina kennslu í notkun getnaðarvarna. Athuganir í tíu ríkjum Bandaríkjanna, sem gerðar voru af samtökum sem eru andvíg skírlífiskennslu án getnaðarvarnakennslu, sýna að kynhegðun unglinga hefur ekkert breyst síðan skírlífiskennsla hófst 1997.

Bush hefur eindregið verið fylgjandi því að í kynfræðslu í skólum sé lögð megináhersla á skírlífi en ekki fjallað um getnaðarvarnir.

„Það þarf enga rannsókn, ef ég man rétt það sem ég lærði í líffræði, til að sýna fram á að þeir sem eru skírlífir eiga enga hættu á að verða barnshafandi eða gera einhvern barnshafandi eða fá kynsjúkdóma,“ sagði Wade Horn, aðstoðarheilbrigðisráðherra sem hefur yfirumsjón með fjárveitingum til skírlífiskennslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert