Þýska póstþjónustan hefur sett nýtt met í töfum á útburði, en bréf sem sent var fyrir 286 árum hefur nú loksins komist á leiðarenda.
Frá þessu greinir Anonva.com.
Það var kirkjuembættismaður í bænum Eisenach í Þýskalandi sem sendi bréfið til starfsbræðra sinna í nágrannabænum Ostheim árið 1718 og veitti með því heimild til að ráðinn yrði nýr prestur eftir að sá sem þjónað hafði prestakallinu lést.
En fyrir mistök barst bréfið til annars bæjar sem heitir einnig Ostheim og er skammt frá Frankfurt, og þar endaði það í bæjarskjalasafninu.
Karl Schneider, sagnfræðingur í Ostheim-vor-der-Rhön, þangað sem bréfið átti að berast, uppgötvaði mistökin þegar hann var að ræða við starfsbróður sinn í Ostheim við Frankfurt um gögn í skjalasafninu.
Schneider bar bréfið saman við mannanöfn og atburði í sögu heimabæjar síns, og í framhaldi af því komst það loksins á leiðarenda í dag.
Í árdaga þýsku póstþjónustunnar sáu nautgripakaupmenn að mestu um útburð á bréfum, þar sem hin konunglega póstþjónusta tengdi einungis stærstu borgirnar.
Þrátt fyrir að bréfið bærist ekki í tæka tíð var nýr prestur ráðinn í Ostheim þarna fyrir hartnær þrjú hundruð árum.