George W. Bush Bandaríkjaforseti sagðist í vikulegu útvarpsávarpi sínu í dag biðja fyrir friði og hamingju á jörð, og þakkaði bandarískum hermönnum í Írak og annars staðar fyrir fórnir þeirra „í þágu friðar og öryggis okkar allra“.
Lagði Bush áherslu á að um jól væri rétti tíminn til að hugsa til bandarískra hermanna „einkum þeirra sem eru fjarri heimahögum“.
Sagði Bush að „þessir hæfileikaríku og hugrökku Bandaríkjamenn“ berðust „gegn óvinum frelsisins“ og vernduðu Bandaríkin fyrir hættum.
„Með því að færa kúguðum frelsi leggja hersveitir okkar sitt að mörkum til að sigur vinnist í stríðinu gegn hryðjuverkamönnum, og tryggja frelsi og öryggi okkar allra,“ sagði Bush, sem dvelur um jólin í forsetabústaðnum í Camp David. Hann heldur síðan heim á búgarð sinn í Crawford í Texas.
Þúsundir bandarískra hermanna eru staðsettir víðs vegar um heiminn yfir hátíðarnar, þ. á m. eru um 150.000 í Írak.