Yfir 55.000 manns látnir af völdum flóðbylgjunnar

Þessum fiskibátum skolaði á land í bænum Berwalla á suðurhluta …
Þessum fiskibátum skolaði á land í bænum Berwalla á suðurhluta Sri Lanka af völdum flóðbylgjunnar á sunnudag. AP

Staðfest hefur verið að yfir 55.000 manns að minnsta kosti hafi farist af völdum flóðbylgjunnar miklu í ríkjum við Indlandshaf á annan dag jóla. Þar af fórust 27.174 í Indónesíu, langflestir á vesturhluta Súmötru en 17.640 að minnsta kosti létu lífið á Sri Lanka. Embættismenn segja ekki öll kurl komin til grafar og vara við því að talan eigi eftir að hækka verulega.

Þá liggur fyrir að rúmlega 8.500 fórust í Indlandi og þar er búist við að fjöldinn eigi eftir að vaxa mjög. Meðal þeirra eru um 4.000 sem drukknuðu á eyjunum Andaman og Nicobar sem eru skammt frá upptökum risaskjálfta sem hratt flóðbylgjunni af stað. Þar er enn þúsunda saknað en fimm stór þorp sópuðust á haf út.

Um 4.500 manns fórust í ríkinu Tamil Nadu syðst á Indlandi og í Pondicherry, hinni gömlu frönsku nýlendu. Í suðurhluta Taílands fórust að minnsta kosti 1400 manns, þar af rúmlega 700 erlendir ferðamenn. Segja embættismenn að búist sé við að manntjónið þar í landi eigi eftir að reynast talsvert hærra, eða minnst 2000 manns. Þá fórust a.m.k. 90 í Myanmar og þar er sömuleiðis búist við að talan eigi eftir að margfaldast þegar upp verður staðið.

Á Maldíveyjum fórust a.m.k. 55 og 68 er saknað. Í Malaísíu hefur lát 65 manna verið staðfest og undan Sómalíuströndum er talið að um 100 sjómenn hafi farist er flóðbylgjan náði alla leið þangað, um 4.600 km frá upptökum sínum. Þá létu að minnsta kosti tíu lífið í nágrannaríkinu Tansaníu.

Í fljótu bragði lítur tafla yfir manntjónið - eins og það var í morgun - út sem hér segir:

Sri Lanka: 17.640
Indland: 8.523
Indónesía: 27.174
Taíland: 1439
Myanmar: 90
Maldíveyjar: 55
Malaísía: 65
Bangladesh: 2
Sómalía: 100
Tansanía: 10
Samtals: 55.007
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert