Ekkert óeðlilegt þótt skjálftar haldi áfram í Skjálfandadýpi

mbl.is/KG

Ragnar Stefánsson hjá eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands segir að nálega 100 eftirskjálftar af stærðinni 2 stig á Richter-kvarða eða stærri hafi orðið á Skjálfandadýpi þar sem rúmlega 5 stiga skjálfti varð fjórðungi fyrir klukkan fjögur í dag. Hann segir ekkert óeðlilegt þótt skjálftar haldi áfram á þessum slóðum enn um sinn.

„Tveggja og rúmlega tveggja stiga eftirskjálftar halda þarna nokkuð stöðugt áfram - voru til dæmis 12-13 milli sjö og átta í kvöld. En svo má búast við því að þetta fari að fjara út, eins og eðlilegt er. Það eru engin merki um að þarna sé t.d. um eldgos á hafsbotni að ræða eða slíkt, óróinn er ekki þess háttar.

Það er ekkert ólíklegt að titringurinn haldi eitthvað áfram og að skjálftar verði jafnvel í næsta nágrenni þar sem þarna hefur losnað um dálítið mikla spennu í jarðskorpunni,“ sagði Ragnar við Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is).

Skjálftarnir í dag hafa átt sér stað á svonefndu nyrðra rekbelti. Auk megin skjálftanna sem orðið hafa um og rúmlega 20 km austsuðaustur af Grímsey hafa orðið nokkrir skjálftar sunnar og uppi á landi; að Þeistareykjum, og norðvestur af Dreka og Kröfuvirkjun. Segir Ragnar líklegt að milli neðansjávarskjálftanna og hinna sé samband enda á sama brotabelti.

Ragnar segir enga ástæðu til að hafa áhyggjur af skjálftavirkninni á Skjálfandadýpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka