Þrátt fyrir að óumbúið rúm þyki ekki til fyrirmyndar er líklegra heilsusamlegra að sleppa því að búa um, að mati breskra vísindamanna. Telja þeir að rykmaurar þrífist síður í óumbúnum rúmum en þeir valda m.a. astma og ofnæmi.
Rannsókn sem vísindamenn við Kingston-háskóla leiddi í ljós maurarnir eiga erfitt með að lifa af í hinum þurru aðstæðum sem skapast í óumbúnu rúmi, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Talið er að í hverju rúmi geti verið allt að 1,5 milljón rykmaurar. Þeir lifa á húðögnum mannfólksins og framleiða ofnæmisvaka sem fólk andar að sér á meðan það sefur. Þess má geta að rannsóknir benda til þess að lítið sé um rykmaura hér á landi en þó eru um 6% Íslendinga með rykmauraofnæmi.
Hinar heitu, röku aðstæður sem myndast þegar fólk liggur í rúmi eru kjöraðstæður fyrir maurana en þeir lifa síður af þar sem raka skortir.
Vísindamennirnir bjuggu til líkan til að fylgjast með því hvernig breytingar á heimilinu geta minnkað fjölda rykmaura í rúminu.
„Við vitum að maurarnir geta einungis lifað af með því að fá í sig raka úr umhverfinu í gegnum örlitla kirtla sem eru á líkama þeirra. Einfaldir hlutir á borð við að skilja rúmið eftir óumbúið veldur því að lökin og dýnan þorna sem verður til þess að maurarnir þorna upp og deyja,“ segir dr. Stephen Pretlove, sem tók þátt í rannsókninni.
Næsta skref í rannsókninni verður að setja maura í rúm í 36 húsum víðs vegar á Englandi til að kanna hvernig maurarnir hreyfa sig og háttsemi fólks hefur áhrif á fjölgun rykmaura.