Rice segir 6 ríki heims vera „útverði alræðis“

Condoleezza Rice á þinginu í gær.
Condoleezza Rice á þinginu í gær. AP

Condoleezza Rice, verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á Bandaríkjaþingi í gær, að Bandaríkin verði að aðstoða við að koma á frelsi í ríkjum sem hún nefndi „útverði alræðis“ í heiminum. Þessi ríki eru Kúba, Íran, Norður-Kórea, Zimbabwe, Búrma og Hvíta-Rússland, að því er fram kemur í frétt BBC.

Kom þetta fram þegar Rice svaraði spurningum þingmanna á Bandaríkjaþingi í umræðum vegna embættistöku hennar, sem einnig standa yfir í dag. Búist er við að þingið staðfesti útnefningu hennar í embætti utanríkisráðherra.

Ummælin minna á orð George W. Bush, Bandaríkjaforseta, frá árinu 2002, um „öxulveldi hins illa“. Þá lýsti forsetinn því yfir að Írak, Íran og Norður-Kórea væru ógn við öryggi Bandaríkjanna.

Í upphafi ræðu Rice á þinginu sagðist hún telja að í samskiptum Bandaríkjanna við umheiminn ætti að hafa „samræður, ekki einræður, að leiðarljósi.“ Hún sagði einnig að mögulegt væri að breiða út frelsi í heiminum nú á fyrstu árum 21. aldarinnar. „Ljóst er, að í heimi okkar fyrirfinnast útverðir alræðis, og Bandaríkin standa með kúguðu fólki í öllum heimsálfum, á Kúbu, Búrma, í Norður-Kóreu, Hvíta-Rússlandi og Zimbabwe,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert