Allmargir smáir eftirskjálftar hafa mælst eftir að öflugur jarðskjálfti af stærðinni 5,2 á Richter varð klukkan 20:29 í gærkvöldi um 200 kílómetra austur af landinu, að sögn Hjörleifs Sveinbjörnssonar jarðfræðings á Veðurstofu Íslands. Hann segir að fyrsti skjálftinn hafi fundist greinilega, einkum í Neskaupstað. Þá hafi menn í flugturninum á Egilsstöðum fundið fyrir skjálftanum og látið vita. „Það var allt glóandi hérna í gærkvöldi,“ segir Hjörleifur.
Spurður um hættu á flóðbylgjum í kjölfar jarðskjálfta segir Hjörleifur að í þessu sambandi skipti meðal annars máli hvernig skjálfta sé um að ræða.
„Skjálftinn í gær virðist hafa verið svonefndur siggengisskjálfti,“ segir hann og bætir við að skjálftar sem verða á Suðurlandi séu venjulega sniðgengisskjálftar. „Þá eru plöturnar að skríða framhjá hvor annarri en í siggengi er annar helmingur sprungunnar að síga niður eða önnur sprungan rís upp. Þegar slíkt gerist er sjávarbotninn að lækka. Slík breyting á sjávarbotninum hefur náttúrulega áhrif á yfirborð sjávar og myndar þannig ölduna,“ segir Hjörleifur.
Hann bætir við að þótt um stóran skjálfta hafi verið að ræða sé ekki víst að mikil hreyfing hafi orðið á botninum. Mikil spenna kunni að hafa safnast upp en ekki sé öruggt að nógu mikil hreyfing hafi orðið á botninum til þess að mynda stóra öldu. „Það er þó ekki ólíklegt að breyting hafi orðið, en hún hefur þá sennilega verið minni en öldugangurinn úti á sjó svo fólk hefur ekkert tekið eftir því,“ segir Hjörleifur.
Aldan rís mikið þegar hún kemur á grynningar
Hjörleifur segir að hefði verið um stærri skjálfta að ræða hefði slíkt auðvitað haft töluverð áhrif, en ýmislegt skipti máli í þessu sambandi, svo sem áhrif grynninga á ölduhæð. „Aldan rís mikið þegar hún kemur upp á grynningar. Hún getur ferðast næstum óséð yfir langt haf en þegar upp á grynningar kemur rís hún upp og það er hættulegast. Þegar hún kemur að landi þar sem er tiltölulega djúpt, eins og á flestum stöðum við Austurland, og ekki sandfjörur langt út, rís aldrei há alda,“ bætir Hjörleifur við.