Yfirvöld á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum tilkynntu í dag að þau hefðu handtekið Palestínumann sem talinn er tengjast dauða tíu ára palestínskrar stúlku sem varð fyrir byssuskoti í Rafah-flóttamannabúðunum á Gasasvæðinu í gær. Áður höfðu Palestínumenn sakað Ísraelsher um að bera ábyrgð á dauða stúlkunnar og Hamas-samtökin gerðu árásir á landnemabyggð gyðinga í gær til að hefna hennar. Þetta kemur fram á fréttavef Ha´aretz.
Ísraelsher vísaði ábyrgð á dauða stúlkunnar, Nuran Dib, á bug í gær og sagði líklegast að hún hefði orðið fyrir skotum Palestínumanna sem skutu upp í loftið til að fagna nýastaðinni pílagrímsför sinni til Mekka.
Stúlkan var að leik við skóla flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna er hún varð fyrir skoti. Sjö ára stúlka varð einnig fyrir skoti en hún lifði það af.