Vilja algert reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, og þrír aðrir þingmenn, hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir að tóbaksreykingar verði ekki leyfðar á veitinga– og skemmtistöðum.

Meðflutningsmenn Sivjar eru Ásta R. Jóhannesdóttir, Samfylkingu, Jónína Bjartmarz, Framsóknarflokki og Þuríður Backman, Vinstri grænum.

Í frumvarpinu er m.a. lagt til að fyrsta málsgrein níundu greinar laga um tóbaksvarnir orðist svo: Tóbaksreykingar eru óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka, s.s. á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagsstarfsemi fer fram, þar með talið íþrótta- og tómstundastarf. Sama á við um þjónustusvæði utan húss séu þau undir föstu eða færanlegu þaki og meira en að hálfu leyti umlukin veggjum eða sambærilegum mannvirkjum.

Lagt er til að lögin, verði þau samþykkt, komi til framkvæmda 1. maí 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert