Halldór segir eindrægni hafa ríkt á leiðtogafundi NATO

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, ræðir við Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, í …
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, ræðir við Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, í Brussel í dag. AP

Mikil eindrægni ríkti á fundi leiðtoga aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Brussel í dag, að sögn Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Samþykkt var að öll aðildarríkin 26 myndu leggja fram sinn skerf við uppbyggingu í Írak „Maður varð var við að það komu allir til þessa fundar í þeim tilgangi að treysta Atlantshafstengslin,“ segir Halldór.

Hann sagði einingu hafa ríkt um að leggja til hliðar gömul ágreiningsmál eins og Íraksstríðið og horfa fremur fram á veginn. NATO hafi mikilvægu hlutverki að gegna og njóti trausts um allan heim sem samtök er efli friðinn.Sagði Halldór að meðal annars hefði verið rætt um möguleikann á að bandalagið tæki að sér friðargæslu ef samningar tækjust milli Ísraela og Palestínumanna. En engar ákvarðanir hefðu þó verið teknar í þeim efnum.

„Þess verður vart á fundum Bandaríkjaforseta í Evrópu núna að hann er ekki bara að ræða málin á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, hann er líka að ræða beint við Evrópusambandið og forustumenn stærstu ríkja þess,“ sagði forsætisráðherra. „Við sem stöndum utan Evrópusambandsins höfum vissu lega áhyggjur af þessari þróun. Þessi mál komu meðal annars fram í máli Gerhards Schröders, kanslara Þýskalands, sem útskýrði mjög vel á fundinum viðhorf sín og ég þakkaði honum sérstaklega fyrir þær útskýringar. Það mátti skilja ummæli sem höfð voru eftir honum nýlega í München að hann vildi efna til sérstakara viðræðna milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál, umræðna sem okkur finnst mörgum að eigi heima innan NATO en ekki á vettvangi Evrópusambandsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert