Bush segir að „stærsta áskorun nútímans“ sé að verjast bin Laden

Bush ásamt Mike Chertoff, ráðherra heimavarna, við athöfn í Ronald …
Bush ásamt Mike Chertoff, ráðherra heimavarna, við athöfn í Ronald Reagan-byggingunni í Washington í dag. AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti sagði í dag að aðgerðir til að koma í veg fyrir að Osama bin Laden geri aftur árás á Bandaríkin séu „stærsta áskorun nútímans“. Bush minnist nánast aldrei á bin Laden en hjá Hvíta húsinu hefur verið reynt að gera lítið úr mikilvægi þess að ná honum, í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Bush staðhæfir að leitin að bin Laden, sem hefur hingað til reynst árangurslítil, „setji þrýsting á hann“. Fyrst eftir hryðjuverkin 11. september 2001 lýsti Bush því yfir að bin Laden væri eftirlýstur „lífs eða liðinn“ og lofaði aftur og aftur að hann myndi nást.

Bin Laden varð aftur fréttaefni í vikunni þegar starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar sögðu að hann hefði fengið Abu Musab al-Zarqawi, leiðtoga al-Qaeda í Írak til að skipuleggja nýjar árásir í Bandaríkjunum.

Bush staðfesti tengslin á milli hryðjuverkamannanna tveggja við athöfnina þegar nýr ráðherra heimavarna, Mike Chertoff, tók við embætti í dag.

„Við erum alltaf á eftir bin Laden. Við setjum þrýsting á hann, svo hann verður að vera í felum. Og í dag veit Zarqawi að íraskar sveitir og erlenda herliðið er líka sífellt á hælum hans,“ sagði Bush.

„Skilaboð bin Ladens minna okkur á að al-Qaeda vonast enn til að geta ráðist á okkur á okkar heimavelli. Það er stærsta áskorun nútímans að stöðva hann,“ sagði hann.

Hann sagði að með ýmsu móti hefði tekist verja þjóðina fyrir árásum. Vel hefði tekist að brjóta upp hryðjuverkahópa og að ráðist hefði verið í „sérstakar aðgerðir“ til að efla öryggi og eftirlit. Sumar þessara aðgerða hafa verið umdeildar. Þó viðurkenndi hann að það væri margt sem þyrfti að gera.

„Við höfum ekki efni á því að verða kærulaus. Á meðan við eflum varnir okkar, finna hryðjuverkamennirnir nýjar leiðir til að bregðast við því. ... Þeir eru enn mikil ógn við bandarísku þjóðina.“

Bush kemur til Ronald Regan byggingarinnar í Washington þar sem …
Bush kemur til Ronald Regan byggingarinnar í Washington þar sem athöfnin fór fram í dag. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert