Þungt hljóð í starfsmönnum Slippstöðvarinnar

Guðmundur Tulinius, forstjóri Slippstöðvarinnar, ræðir við starfsmenn í dag.
Guðmundur Tulinius, forstjóri Slippstöðvarinnar, ræðir við starfsmenn í dag. mbl.is/Kristján

Þungt hljóð var í starfsmönnum Slippstöðvarinnar á Akureyri á hádegisfundi í dag en fundurinn lýsti yfir megnri óánægju sinni með þá ákvörðun Ríkiskaupa að sniðganga tilboð stöðvarinnar og gagna til samninga við erlenda skipasmíðastöð um endurbætur á varðskipunum Ægi og Tý.

„Það er óvíst hvort hægt er að breyta einhverju nú, samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum er þegar búið að semja við pólsku skipasmíðastöðina, en við munum reyna til þrautar að fá þeirri ákvörðun hnekkt, sagði Hákon Hákonarson formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri.

Hann sagði það réttmæta kröfu að starfsmenn Slippstöðvarinnar fengju að vinna verkið við endurbætur varðskipanna, en munur á milli tilboðs Slippstöðvarinnar og pólsku stöðvarinnar væri einungis 13 milljónir króna.

Guðmundur Tulinius forstjóri Slippstöðvarinnar sagði að mönnum fyndist oft að verið væri að búa til dæmi svo hægt væri að auðvelda mönnum að fara með verk af þessu tagi úr landi. Hann sagði skilmála útboðsins þannig að verð vægi 70%, ISO-vottun 20% og reynsla 10%. „Það vissu allir fyrirfram að við vorum ekki með þessa vottun, þessir skilmálar virðast búnir til svo hægt sé að sniðganga íslenskan iðnað."

Þá nefndi Guðmundur þá tilhneigingu íslenskra embættismanna hvað varðar EES-samninginn að finna fyrst út hvað megi ekki, en annars staðar þar sem hann þekkti til, t.d. í Þýskalandi byrjuðu menn á að skoða hvað mætti svo hægt væri að styðja við eigin iðnað.

Starfsmenn sem til máls tóku nefndu m.a. að svo virtist sem ráðgjafar reyndu að fá sem mest út út málinu, þeir fengju meira fyrir sinn snúð með því að fara með verkið úr landi, þannig fengjust meiri dagpeningar vegna eftirlits þeirra.

Fundurinn skoraði á fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra að endurskoða ákvörðunina og gagna tafarlaust til samninga við Slippstöðina um framkvæmd verkefnisins og einnig skoraði fundurinn á iðnaðarráðherra og þingmenn kjördæmisins að beita sér af alefli í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert