Um 400 þúsund tonn af loðnu týndust fyrir austan

Það er alveg nýtt fyrir fiskifræðingum að stór hluti loðnugöngunnar …
Það er alveg nýtt fyrir fiskifræðingum að stór hluti loðnugöngunnar hverfi. mbl.is/Landhelgisgæslan

Talið er að 300-400 þúsund tonn úr loðnugöngunni fyrir austan í vetur hafi týnst áður en loðnan gekk upp á grunnin suður af landinu. Þessi loðna hefur að öllum líkindum hrygnt djúpt suðaustur af Íslandi og ekki er ótrúlegt að seiðin reki norðaustur í Noregshaf og komi Íslendingum lítið að gagni.

Þetta kemur fram í viðtali í nýjustu Fiskifréttum við Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðing. Hann segir að loðnuvertíðinni nú svipi til vertíðarinnar í fyrra að því leyti að stór hluti göngunnar sem sást fyrir austan land og skipin voru að veiða úr hafi ekki skilað sér til hrygningar upp á grunnin suður af landinu. Enginn hafi orðið var við þessa týndu loðnu neins staðar.

"Á þeim 35 árum sem ég hef stundað loðnurannsóknir hef ég séð alls konar uppátæki hjá loðnunni. Það er alveg nýtt fyrir mér að stór hluti göngunnar hverfi hreinlega,“ segir Hjálmar. Hann hafnar því hins vegar að loðnan hafi getað snúið við og farið aftur norður og vestur um.

Vefsetur Fiskifrétta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka