Syrgjendur hófu í dag að votta Jóhannesi páli II páfa virðingu sína í Péturskirkjunni í Róm en þar mun líkið standa uppi fram á fimmtudag. Stöður straumur fólks var inn í kirkjuna að líki páfa. Ilaria Di Marzio, frá bænum Pescara við Adríahafið sagði það hafa verið „tilfinningaþrungna stund“ þegar hún vottaði páfa virðingu sína. „Hann var stórkostlegur páfi. Ég er sorgmædd en einnig hamingjusöm,“ sagði hún.
Búist er við allt að tvær milljónir pílagríma muni ganga framhjá líki páfa í Péturskirkjunni áður en páfi verður jarðsunginn í grafhvelfingu undir kirkjunni á föstudag. Margir þjóðhöfðingjar munu verða viðstaddir athöfnina, þar á meðal George W. Bush, Bandaríkjaforseti. Í kvöld var tilkynnt að Ahmed Qureia, forsætisráðherra Palestínumanna, yrði meðal þeirra sem myndu fylgja páfa til grafar.