Mjaldur hefur sést í Delawareá í New Jersey í Bandaríkjunum síðustu daga, um 150 km inni í landi. Líklegt er talið að um sé að ræða ungt dýr, sem hafi villst upp ána. Svo virðist sem hvalurinn hafi nú snúið við og er vonast til að hann komist af sjálfsdáðum aftur út á haf. Hefur umferð báta verið takmörkuð á ánni til að rugla ekki hvalinn í rýminu.
Mjaldurinn hefur að vonum vakið talsverða athygli. Hefur AP fréttastofan eftir embættismanni í Trenton í New Jersey, að fjórar sjónvarpsfréttaþyrlur hafi sveimað yfir hvalnum í morgun og fjöldi fólks hafi staðið á árbakkanum og fylgst með dýrinu.
Mjaldur er frekar lítill hvalur, 3-5,5 metrar að lengd og hvítur eða gulleitur á lit. Hvalirnir fara yfirleitt um í hópum en dreifa sér þó þegar þeir elta átu. Segja líffræðingar, að mjaldurinn í Delawareá sé hugsanlega ungt dýr, sem hafi verið hrakið úr hópi, eða fullorðið dýr sem hafi elt síldartorfu upp ána.
Sléttbakur, sem nefndur var Waldo, villtist upp Delawareá árið 1995. Hvalurinn synti á land við olíuhöfn í Pennsauken í New Jersey en losnaði af sjálfsdáðum og hvarf eftir um 10 daga. Tveimur árum síðar sást til Waldos á sundi nálægt Kanada.