Skipuleggjendur vísindaráðstefnu létu gabbast

Þrem bandarískum háðfuglum tókst nýverið að gabba skipuleggjendur upplýsingatækniráðstefnu í Flórída og fá samþykkta til flutnings þar ritgerð sem samanstóð af orðum, setningum, kortum og línuritum sem tölvuforrit valdi af handahófi. Sendu þeir tvær slíkar „ritgerðir“ til skipuleggjendanna, og fékkst önnur þeirra samþykkt.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, og hefur eftir Reuters.

Einn háðfuglanna sagði að tilgangurinn með gabbinu hafi verið að sýna fram á að litlar kröfur séu gerðar um vönduð vinnubrögð á vísindaráðstefnum sem þessari.

Titill ritgerðarinnar er: „Rooter: A Methodology for the Typical Unification of Access Points and Redundancy,“ og í henni segir meðal annars: „We implemented our scatter/ gather I/O server in Simula-67, augmented with opportunistically pipelined extensions ... “.

Háðfuglarnir eru framhaldsnemendur í tölvunarfræði við MIT-háskólann í Boston og segir einn þeirra að þeir hafi ákveðið að senda „ritgerðina“ til skipuleggjenda þessarar tilteknu ráðstefnu, sem haldin verður í Orlando í júlí, vegna þess að þaðan hafi borist mikið af fjölpósti þar sem falast var eftir ritgerðum til flutnings.

„Við vorum búnir að fá nóg af öllum þessum fjölpósti.“

Stjórnandi ráðstefnunnar segir að gabb-ritgerðin hafi verið samþykkt til flutnings vegna þess að enginn þeirra sérfræðinga sem hafi átt að meta hvort hún væri hæf til flutnings hefði skilað áliti á réttum tíma, og ekki hafi þótt rétt að neita ritgerð sem sérfræðingarnir hafi ekki verið búnir að hafna.

Verið væri að endurskoða aðferðir við mat á ritgerðum sem sendar væru til ráðstefnunnar.

„Vísindaritgerðin" í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert