Vatnsmýrin í Reykjavík hefur orðið fyrir valinu sem framtíðarsvæði Háskólans í Reykjavík og mun yfirstjórn háskólans nú taka upp formlegar samningaviðræður við Reykjavíkurborg um uppbyggingu háskólans og tengdrar starfsemi á svæðinu. Svæðið sem hér um ræðir liggur undir Öskjuhlíðinni, á milli Hótels Loftleiða og Nauthólsvíkur.
Tvö svæði voru í boði, annars vegar Urriðaholt í Garðabæ og hins vegar Vatnsmýrin í Reykjavík. Hið nýja háskólasvæði verður steinsnar frá miðborg Reykjavíkur og samgöngumiðstöð höfuðborgarsvæðisins. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við háskólahverfið hefjist árið 2006, að háskólinn taki þar til starfa haustið 2008 og að nemendur verði þá ríflega 3000 og starfsmenn um 200.
Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum í Reykjavík voru bæði svæðin voru afar álitleg að mati forráðamanna skólans en útslagið gerði staðsetningin í Vatnsmýrinni skammt frá því þekkingarsamfélagi og rannsóknarstofnunum sem þar eru og verði í framtíðinni. Framtíðarsýn Háskólans í Reykjavík sé að byggja upp alþjóðlega menntastofnun, sem verði fyllilega sambærileg við bestu háskóla erlendis í viðskiptafræði, lögfræði, stjórnendamenntun, verkfræði, tölvunarfræði, tæknifræði, kennslufræði og á fleiri sviðum. Staðsetning í Vatnsmýrinni styðji við þá framtíðarsýn.
Línuhönnun og VSÓ ráðgjöf voru fengin til að leggja mat á kosti beggja svæða ásamt erlendum sérfræðingum á þessu sviði frá Rickes Associates í Boston. Fyrirtækin þrjú unnu sjálfstætt og án samráðs sín á milli að mati á þessum valkostum fyrir Háskólann í Reykjavík. Í matinu var tekið tillit til fjölmargra þátta til skemmri og lengri tíma litið, svo sem tæknilegra, fjárhagslegra og stefnumarkandi þátta sem snúa að framtíðarsýn háskólans. Á grundvelli greiningar þessara þriggja aðila samþykkti háskólaráð HR samhljóða að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um framtíðarstaðsetninguna.
Það er mat Háskólans í Reykjavík að Vatnsmýrin skapi einstakt tækifæri til að mynda þekkingar- og nýsköpunarumhverfi á heimsmælikvarða í hjarta höfuðborgarinnar. Auk þess sem íbúum muni fjölga verulega á svæðinu á næstu árum, megi gera ráð fyrir að 20 til 30 þúsund manns verði við nám og störf í þekkingar-, háskóla- og rannsóknarumhverfi á Vatnsmýrarsvæðinu. Það sé álit þeirra sem til þekki að Vatnsmýrin hafi flest það sem gott háskólaumhverfi þarfnist, þ.e.a.s. nálægð við miðborgina, hátæknisjúkrahús, fræða- og menningarsetur, listasöfn, menningarlíf og fjölbreytta þjónustu. Þá verði háskólinn, sem stefni að því að fjölga umtalsvert erlendum nemendum og kennurum, staðsettur rétt við helsta veitinga- og gistihúsasvæði borgarinnar, sem sé afar mikilvægt m.a. vegna alþjóðlegra funda og ráðstefnuhalds fræðimanna.