Kom til Íslands og samdi æðislegt lag

mbl.is/Sverrir

„Það er frábært að vera kominn aftur til Íslands, landsins sem gaf mér svo margt og blés mér í brjóst einu af mínum bestu lögum," sagði Robert Plant, söngvari sveitarinnar Strange sensation, á blaðamannafundi á Fjörukránni í Hafnarfirði í dag. Plant talaði síðan um þá upplifun sem ferð hans með Led Zeppelin hingað til lands árið 1970 hefði verið. „Ég kom hingað sem lítill strákur, átti æðislegt samband við fólkið hér og samdi æðislegt lag. Það er ekki slæm helgi. En ef ég hefði bara vitað um skaðann sem hún myndi valda rokkheiminum. Allar rokksveitir fóru í víkingagírinn og allir söngvarar fóru að klæða sig í þröngar buxur þannig að tólin stóðu út. Ég er alveg miður mín yfir því,“ sagði Plant.

Spurðir um það hvort fortíð Plants flækist fyrir sveitinni sögðu Plant og félagar hans ekki laust við það þar sem blaðamenn reyni sífellt að bera þá saman við Led Zeppelin og áhorfendur vilji einnig upplifa gamla daga á ný. Þeim finnist þó mikilvægt að gera hlutina á eigin forsendum auk þess sem Plant kunni vel að meta það að vera ekki lengur miðpunkturinn. „Það hefði verið einfalt að hlaupa alltaf aftur til móðurskipsins, en það hefði verið tilgangslaust, því móðurskipið lagðist að bryggju fyrir mörgum árum," sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert