Landnemar bera eitur á akra Palestínumanna

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa sakað ísraelska landnema um að eitra fyrir búfénaði Palestínumanna, suður af borginni Hebron á Vesturbakkanum, og ísraelsk yfirvöld um að líta framhjá því. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.

Samkvæmt upplýsingum samtakanna hafa ísraelskir landnemar borið eiturefni á akra Palestínumanna undanfarnar vikur og ísraelsk yfirvöld, sem fara með stjörn á umræddu svæði, hvorki hreinsað eiturefnin né gripið til aðgerða gegn landnemunum.

„Palestínskir bændur hafa neyðst til að einangra dýr sín og hætta að neyta mjólkur, osta og kjöts sem þau gefa af sér. Þeir hafa þannig verið sviptir lífsviðurværi sínu," segir m.a. í yfirlýsingu samtakanna. Þá eru ísraelsk yfirvöld hvött til að grípa til aðgerða gegn hinum seku.

Lögregla á svæðinu hefur staðfest að landnemar hafi borið eitur á akrana en vísar því á bug að hún hafi ekki gripið til viðeigandi ráðstafana.

Íbúar landnemabyggðarinnar Maon, suður af Hebron, og annarrar nýlegrar ólöglegrar byggðar í nágrenninu, eru þekktir af því að áreita Palestínumenn sem búa á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka