Stærsta farþegaþota sem byggð hefur verið í loftið

AP

Stærsta farþegaþota sem byggð hefur verið, Airbus 380, er nú í sínu fyrsta reynsluflugi en vélin fór á loft frá Toulouse í Frakklandi á níunda tímanum í morgun. Airbus tilkynnti á mánudag að fyrsta flug vélarinnar yrði í dag, eftir nokkrar tafir við gerð hennar. Búist er við að vélin verði 2-4 klukkutíma á flugi í dag en fari ekki langt frá Toulouse.

Veður var gott í Toulouse í morgun, heiður himinn, sólríkt og hæg gola. Tveir reyndir, franskir tilraunaflugmenn eru við stjórnvölinn í vélinni í dag. Tugir þúsunda manna fylgjast með fluginu og einnig er sjónvarpað beint frá þessum viðburði í Frakklandi. Fagnaðarlæti kváðu við þegar flugvélin hóf sig á loft. Var til þess tekið hvað vélin var hljóðlát í flugtakinu.

Alls eru sex manns í fyrstu áhöfn vélarinnar og fóru þeir um borð í hana um klukkan 7 í morgun, miðað við íslenskan tíma. Um borð eru einnig um 20 tonn af mælitækjum.

Airbus 380 er tveggja hæða og á að geta borið milli 550 og 840 farþega og flugdrægni verður allt að 15 þúsund kílómetrar. Gert er ráð fyrir að fyrstu flugvélarnar verði afhentar til kaupenda um mitt næsta ár.

Myndasyrpa frá fyrsta flugi A380-þotunnar

Airbus 380, stærsta farþegaflugvél heims, hefur sig til lofts í …
Airbus 380, stærsta farþegaflugvél heims, hefur sig til lofts í fyrsta skipti í morgun. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert