Lögreglumönnum á Akureyri fjölgað um fjóra

Horft yfir Akureyri.
Horft yfir Akureyri. mbl.is

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið í samráði við ríkislögreglustjóra og sýslumanninn á Akureyri að gera sambærilegar breytingar á skipulagi sérsveitar lögreglunnar á Akureyri og gerðar hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og reynst vel.

Hefur ráðherra gert ríkisstjórn grein fyrir breytingunum sem felast m.a. í því að þeir fjórir sérsveitarmenn, sem starfa nú þegar hjá lögreglunni á Akureyri og ganga þar vaktir, munu starfa án vaktaskyldu og að aðrir menn verða ráðnir til almennra löggæslustarfa í þeirra stað.

Lögreglumönnum á Akureyri verður því fjölgað um fjóra, en fjórir sérsveitarmenn sem þegar eru í lögregluliðinu verða starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra. Þeir munu eftir sem áður hafa aðsetur á Akureyri og sinna almennri löggæslu auk sérstakra löggæsluverkefna á Norður- og Austurlandi undir daglegri stjórn sýslumannsins þar.

Athafnasvæði þeirra verður þó ekki bundið við umdæmi sýslumannsins heldur eiga sérsveitarmennirnir að sinna verkefnum sem þykja mest aðkallandi hverju sinni og er þar m.a. horft til verkefna í tengslum við stórframkvæmdir á Austurlandi og aðgerðir gegn fíkniefnasölum og handrukkurum á Norður- og Austurlandi og annarri skipulagðri glæpastarfsemi.

Fyrir rúmu ári var samþykkt í ríkisstjórn tillaga Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um eflingu sérsveitar lögreglunnar og að mati ríkislögreglustjóra hefur reynslan sýnt að með skipulagsbreytingum, stækkun sérsveitar og fjölgun lögreglumanna í Reykjavík hafi verið stigið framfaraspor til að tryggja öryggi borgaranna og efla lögregluna í heild sinni.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kynnti eflingu löggæslunnar á Norður- og Austurlandi …
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kynnti eflingu löggæslunnar á Norður- og Austurlandi á blaðamannafundi á Akureyri. Með honum á myndinni eru Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður t.v. og Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka