Eyðing Amazon-regnskógarins hefur sjaldan verið hraðari en nú

Eyðing Amazon-regnskógarins hefur sjaldan verið hraðari en nú, samkvæmt nýjum tölum sem stjórnvöld í Brasilíu hafa birt. Segir umhverfisráðuneytið þar í landi, að 26.000 ferkílómetrar af skógi hafi verið höggnir á tímabilinu frá júlí 2003 til júlí 2004.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Eru þetta næst hæstu tölur sem sést hafa um eyðingu skógarins á einu ári, og á umræddu tímabili var eyðingin sex af hundraði meiri en árið á undan. Var eyðingin mest í héraðinu Mato Grosso, þar sem tré hafa verið hreinsuð af stórum landsvæðum til að búa til ræktarland.

Eyðing á 26.000 ferkílómetrum þýðir að hátt í fimmtungur alls Amazon-skógarins hefur nú verið höggvinn niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert