Landlæknir átelur DV fyrir frétt um sjúkling með hermannaveiki

Sigurður Guðmundsson, landlæknir, sendi ritstjóra DV í síðustu viku bréf, þar sem blaðið er gagnrýnt fyrir umfjöllun um karlmann, sem liggur á Landspítala-háskólasjúkrahúsi með hermannaveiki. Segir landlæknir m.a. að blaðið hafi farið langt yfir mörk, sem almenn siðferðiskennd segi að séu varðandi slíkar fréttir.

Bréf landlæknis er birt á heimasíðu embættisins í dag og er það eftirfarandi:

    Seltjarnarnesi, 26. maí 2005

    Ágæti ritstjóri.

    Í blaði þínu í dag, fimmtudaginn 26. maí 2005, birtist frétt um mann sem liggur þungt haldinn af hermannaveiki á Landspítalanum. Sjúkdómur þessi hefur verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu, m.a. vegna faraldurs í Noregi og þessa tiltekna tilviks hér. Eins og þér er kunnugt um eru tilvik hermannaveiki hér á landi síður en svo einstakt fyrirbæri og hefur það einnig komið fram. Umfjöllun fjölmiðla um sjúkdóminn hefur almennt verið greinargóð og efnisleg.

    Því miður skýtur mjög skökku við í umfjöllun blaðs þíns í dag þar sem mynd er birt af manninum og nafn hans nefnt. Í lögum um réttindi sjúklinga er rík áhersla lögð á þagnarskyldu heilbrigðisstétta, almenn siðferðiskennd segir flestum að slíkt hið sama gildi um almenning enda eru sjúkdómar manna og þau vandamál sem af þeim hljótast einkamál. Flestir virða þessi mörk.

    Í frétt blaðs þíns var farið langt yfir þau. Því miður er það svo, eins og þér er vafalítið kunnugt um, að fréttamennska af þessu tagi gerir ekkert annað en að auka þjáningar og erfiðleika sem þungbærum sjúkdómi fylgir, bæði fyrir sjúklinginn sjálfan og fjölskyldu hans. Án þess að farið sé í umræðu um fréttastefnu blaðsins yfirleitt er mjög miður að veist skuli vera að sjúklingum á þennan hátt og vonast er til að blaðið sýni vandamálum þeirra meiri og dýpri skilning í framtíðinni. Teljir þú efni þessa bréfs fréttaefni er þér að sjálfsögðu heimilt að birta efni þess.

    Virðingarfyllst,

    Sigurður Guðmundsson,
    landlæknir

    Heimasíða landlæknis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert