Benedikt 16. fordæmir fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneigðra

Benedikt páfi.
Benedikt páfi. AP

Benedikt 16. páfi fordæmdi í dag fóstureyðingar, hjónabönd samkynhneigðra og erfðaverkfræði, en á sunnudaginn fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla á Ítalíu um frjósemislöggjöf landsins. Páfi sagðist á trúarráðstefnu í Róm fordæma „nútímalega upplausn hjónabandsins ... og gervihjónabönd fólks af sama kyni“.

Atkvæðagreiðslan á sunnudaginn snýst um það hvort nema eigi úr gildi lagaákvæði sem veita fóstrum sömu réttindi og fæddum börnum, heimila einungis „áreiðanlegum, gagnkynhneigðum pörum“ frjósemisaðgerðir, takmarka við þrjú þann fjölda eggja sem taka má hverju sinni frjóvgunar og nema úr gildi bann við rannsóknum á fósturvísum.

Ríkisstjórn Silvios Berlusconis setti lögin fyrir ári síðan í þeim tilgangi að loka lagalegum undankomuleiðum sem gert hafði frjósemislöggjöf Ítalíu einhverja þá frjálslegustu í heimi. Kvennasamtök, þingmenn og aðrir sem andvígir voru lögunum söfnuðu fjórum milljónum undirskrifta til stuðnings dómsúrskurði um að ströngustu ákvæði laganna skuli bera undir þjóðaratkvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert