Lögregla beitti táragasi gegn mótmælendum í höfuðborg Bólivíu, La Paz, í dag þar sem óeirðir héldu áfram þrátt fyrir að Carlos Mesa forseti hafi sagt af sér. Tugþúsundir stjórnarandstæðinga hafa svo að segja lamað borgina, en þeir krefjast þjóðnýtingar á gasiðnaðinum í landinu. Mótmælaaðgerðir hafa staðið í La Paz vikum saman.
Vegna ástandsins hefur bólivíska þingið ekki getað komið saman til að velja eftirmann Mesas, sem sagði af sér seint í gærkvöldi. Margir mótmælendanna sögðu að ekki kæmi til greina að forseti öldungadeildar þingsins tæki við forsetaembættinu.
Tugþúsundir frumbyggja, námumanna, námsmanna, bænda og verkamanna hafa streymt til höfuðborgarinnar frá nágrannaborginni El Alto. Lentu margir í átökum við lögreglumenn sem gæta torgsins í La Paz þar sem forsetahöllin og þinghúsið eru. Beitti lögreglan táragasi og handtók nokkra.