Stjórnendur liðanna sjö segjast ekki hafa átt annarra kosta völ en keppa ekki

Bílum Renault ýtt inn í skúr að loknum upphitunarhringnum í …
Bílum Renault ýtt inn í skúr að loknum upphitunarhringnum í Indianapolis. ap

Stjórnendur liðanna sjö sem tóku ekki þátt í bandaríska kappakstrinum í Indianapolis í dag hafa beðið unnendur íþróttarinnar, áhorfendur við brautina sem sjónvarpsáhorfendur og styrkaraðila afsökunar að hafa ekki keppt. Segjast þeir engra annarra kosta hafa átt völ vegna óvissu um öryggi bíla og ökuþóra.

„Þetta er ekki merkisdagur fyrir Formúlu-1,“ sagði Christian Horner liðsstjóri Red Bull um málið. „Það er mjög miður fyrir alla unnendur íþróttarinnar sem hingað komu til að sjá kappakstur að þurfa að horfa upp á aðeins sex bíla keyra,“ bætti Horner við.

Liðin sjö hættu við keppni eftir að stjórnendur íþróttarinnar og liðsstjórar Ferrari neituðu að leyfa viðbótar hlekkbeygju í brautinni til aukins öryggis á þeim stað sem tveir bílar búnir Michelindekkjum flugu út úr henni á æfingum á föstudag og skullu á öryggisvegg.

Michelin-fyrirtækið sagði enga af þeim dekkjagerðum sem það kom með til Indianapolis nothæf til keppni nema dregið yrði úr bílhraða í 13. beygju brautarinnar, lokabeygjunni. Án þess væru dekkin ekki nógu örugg til keppni.

Níu lið af 10 voru reiðubúin að fallast á að lögð yrði hlekkbeygja til bráðabirgða í lokabeygjunni jafnvel þótt að þau yrðu að sæta einhverri refsingu. Voru þau reiðbúin að sæta því að missa hluta af keppnisstigum sem þau myndu vinna eða að bílar á Bridgestonedekkjum fengju að hefja keppni framar á rásmarkinu en bílar á Michelindekkjum. „Því miður hafnaði FIA öllum tillögum,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu liðanna sjö.

„Íþróttin er það mikilvægasta og því miður er þetta sorglegur dagur fyrir okkur öll,“ sagði BAR-stjórinn Nick Fry. Hann var einn sjö liðsstjóra sem fór að ráðum forsvarsmanna Michelin um að keppa ekki en fyrirtækið segist enga skýringu hafa fundið á því hvers vegna dekk gaf sig í lokabeygju hringsins með þeim hætti að Ralf Schumacher flaug út úr henni og skall á öryggisvegg á æfingu á föstudag.

Ferrari, eitt þriggja liða sem brúkar Bridgestonedekk, beitti neitunarvaldi gegn tillögu Michelinliðanna um að bætt yrði hlekkbeygju í löngu hallandi beygjunni. Þar með þóttu tilraunir til að bjarga þátttöku liðanna sjö að engu orðnar og ákváðu Michelinliðin því að draga sig í hlé að loknum upphitunarhring - slegnum áhorfendum til mikillar gremju.

„Í þágu öryggis urðum við að taka ráðum dekkjasmiða okkar. Við gátum ekki leyft okkur að setja ökuþóra okkar, liðsmenn og áhorfendur í hættu. Við áttum í raun og veru engra annarra kosta völ en draga okkur út úr mótinu.

Það er Michelin sem ræður ferðinni þegar upp er staðið. Við höfðum ekki yfir að ráða dekkjum sem voru tæk til keppni þessa helgi,“ segir Horner hjá Red Bull.

Renaultstjórinn Flavio Briatore bætti við: „Við báðum aðeins um það sem við gátum beðið um - hvort hægt væri að breyta legu brautarinnar? Við, vélvirkjar okkar og ökuþórar okkar vildum allir keppa. Okkur er sama þótt Ferrari hafi fengið að starta á undan. Við vildum keppa, svo einfalt var það.“

Áhorfendur krefjast endurræsingar um leið og þeir skunda á brott …
Áhorfendur krefjast endurræsingar um leið og þeir skunda á brott úr stúkunum í Indianapolis. ap
Óhressir áhorfendur í Indianapolis spyrja hvort bjóða eigi uppá pólitík …
Óhressir áhorfendur í Indianapolis spyrja hvort bjóða eigi uppá pólitík eða kappakstur. ap
Áhorfendur í Indianapolis láta vanþóknun sína í ljós.
Áhorfendur í Indianapolis láta vanþóknun sína í ljós. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert