Tveir unglingar voru handteknir í New York borg í dag grunaðir um að hafa myrt unglingspilt til að komast yfir iPod tónlistarspilara hans. Piltarnir eiga yfir höfði sér ákæru fyrir morð, rán og ólöglegan vopnaburð.
Christopher Rose, sem var 15 ára, var ásamt vinum sínum í Brooklyn á laugardagskvöld þegar hópur unglingspilta veittist að þeim. Unglingarnir kröfðust þess að Rose afhenti þeim iPod spilarann sinn og stungu hann síðan tvívegis í brjóstið með hnífi þegar hann neitaði. Hópurinn lagði síðan á flótta og hafði með sér spilarann og bakpoka Rose.
Lögregla segir að það hafi færst mjög í vöxt að iPod spilurum sé rænt í neðanjarðarlestum borgarinnar. Telur lögregla, að ræningjarnir haldi spilurunum en reyni ekki að koma þeim í verð.