Danir, sem eru ein helsta bandalagsþjóð Bandaríkjanna í stríðrekstrinum í Írak, hertu í dag öryggisráðstafanir vegna hugsanlegra hryðjuverkaárása eftir að hátt í 40 manns létu lífið og mörg hundruð manns særðust í árásum í Lundúnum í Bretlandi í gær. „Þetta er ekki spurning um hvort Danmörk verði fyrir árás hryðjuverkamanna heldur hvenær,“ segir Mikkel Vedby Rasmussen, sérfræðingur í öryggismálum við Kaupmannahafnarháskóla, í samtali við AFP fréttastofuna.
„Ég hef auðvitað enga kristalskúlu til þess að líta í og segja til um framtíðina en þetta virðist nú óumflýjanlegt og við verðum að fara að búa okkur undir þennan möguleika,“ bætti hann við.
Hópur, sem kallar sig Leynilegu samtökin - al-Qaeda í Evrópu, og áður var óþekktur, birti í gær yfirlýsingu á íslamskri vefsíðu og sagðist þar bera ábyrgð á sprengjuárásunum í Lundúnum. Þar var hótað árásum í öðrum ríkjum „Krossfaranna,“ ríkja sem hafa hermenn í Írak og Afganistan en Danir eru þar á meðal. Í yfirlýsingu hópsins, sem birtist á Netinu voru ríkisstjórnir Danmerkur, Ítalíu og annarra ríkja sem stutt hafa innrásirnar í Afganistan og Írak, varaðar við. Ekki tókst að staðfesta sannleiksgildi yfirlýsingarinnar.
Róttækir íslamskir hópar í Danmörku fámennari en í Bretlandi
Anja Dalgaard-Nielsen, fræðimaður hjá rannsóknarstofnunni DIIS í Kaupmannahöfn, segist ekki telja að nú sé spurningin aðeins hvenær ráðist verði á Danmörku. „Það er ljóst að við erum að mörgu leyti í svipaðri stöðu og Bretar. Danir vinna náið með Bandaríkjamönnum og Bretum í tengslum við Írak og Afganistan og kunningsskapur er með Tony Blair, George Bush og Anders Fogh Rasmussen. Þrátt fyrir þetta tel ég ekki að ógnin sé jafnmikil í Danmörku og í Bretlandi,“ segir Dalagaard-Nielsen í samtali við Politiken.
Hún bendir sérstaklega á þá staðreynd að róttækir íslamskir hópar í Lundúnum séu langtum fjölmennari en slíkir hópar í Danmörku. Hóparnir í Danmörku eigi erfiðara með að skipuleggja aðgerðir vegna þessa.
Um 530 danskir hermenn eru í Írak en þeir eru staðsettir í Basra í suðurhluta landsins og lúta breskri herstjórn. Dönsk yfirvöld hafa ítrekað að þau muni ekki senda herliðið á brott þrátt fyrir hótanirnar.
Sérstök öryggisnefnd á vegum danskra stjórnvalda hefur hins vegar fyrirskipað að lögregla og leyniþjónusta landsins hækki viðbúnaðarstig á flugvöllum, í höfnum, lestarstöðvum, ferjuhöfnum, verslunarmiðstöðvum, íþróttaleikvöngum og fleiri stöðum.