Heitir í höfuðið á fögrum hvilftarjökli

Jökull Bergmann.
Jökull Bergmann.

„Við erum frá Klængshóli í Skíðadal á Tröllaskaga þar sem er mjög fjallent og jöklar í dalbotnunum. Þar er stærsti hvilftarjökull á Íslandi, Gljúfurárjökull sem er ofboðslega fallegur. Eiginlega heiti ég í höfuðið á honum,“ segir Jökull Bergmann, 28 ára, í viðtali við Tímarit Morgunblaðisins um helgina en Jökull er nú upptekinn við klifur frá morgni til kvölds í Klettafjöllunum í Kanada.

Jökull leggur þar stund á þjálfun fyrir aðstoðaralpaklifursleiðsögumannapróf, sem hann hyggst þreyta í haust. Prófið er einn áfangi í löngu og ströngu námsferli sem Jökull mun að lokum ljúka með titilinum alþjóðafjallaleiðsögumaður í kerfi IFMGA (International Federation of Mountain Guides Association), að líkindum fyrstur Íslendinga.

Jökull hefur áralanga reynslu af fjallamennsku hér heima og erlendis, hefur m.a. gengið á Mont Blanc, Matterhorn, unnið sem leiðsögumaður á Kilimanjaro, í Nepal, á Grænlandi og í Suður-Ameríku. „Minn draumur er að koma heim og miðla þessari reynslu minni þannig að ef stelpur og strákar eins og ég hafa áhuga á að verða fjallaleiðsögumenn þá geti þau gert það á Íslandi án þess að eyða hálfri ævinni og fleiri milljónum í það,“ segir Jökull í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert