Sænskur lögregluhundur þjálfaður til að þefa uppi sæði

Sænska lögreglan hefur þjálfað hund til að þefa uppi sæði sem verður eftir á vettvangi nauðgunar, en slíkt mundi tryggja sönnunargögn byggð á DNA sýni. Hundurinn Xena, sem er tík af belgísku kyni, hefur verið í þjálfun undanfarna mánuði. Xena er nú tilbúin til þess að taka til starfa á vettvangi raunverulegra glæpa, segir Lena Thor, talsmaður hundadeildar lögreglunnar í Gautaborg.

„Hundurinn er sá fyrsti í landinu, og líklega í öllum heiminum, til þess að læra að þefa uppi sæði,“ segir Thor. „Sumir hundar eru betri í því að þefa uppi aðra hluti, en Xena virðist sérstaklega góð í því að þefa uppi sæði.“

Oft reynist erfitt að finna sæði á vettvangi nauðgana utandyra, en Thor segir að Xena geti fundið sæði sem annars mundi hverfa. „Það er mikilvægt að hundurinn komi sem fyrst á staðinn vegna þess að sæði er svo fljótt að hverfa,“ segir Thor.

Um 80 hundar eru í hundadeild lögreglunnar í Gautaborg og eru þeir þjálfaðir til að þefa uppi allt frá eiturlyfjum og sprengiefna til blóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka