Tímaritið Variety greinir frá því að skaðabótamál hafi verið höfðað á hendur framleiðendum kvikmyndarinnar The Island, þar sem Scarlett Johansson og Ewan McGregor fara með aðalhlutverk, og segi málshöfðendur að myndin sé byggð á gamalli mynd, Parts: The Clonus Horror, sem framleidd var 1979. Krefjast höfundar Clonus þess að hætt verði að sýna The Island.
Frá þessu greinir fréttavefur BBC.
Framleiðendur Clonus krefjast þess ennfremur að fá greiddar ótilgreindar skaðabætur og hluta af þeim tekjum sem fengist hafi af sýningum á The Island. Tilgreina höfundar Clonus níutíu atriði í The Island sem þeir segja „nákvæmlega eins“ og atriði í Clonus. Ýmsir gagnrýnendur hafa þegar bent á líkindi með myndunum.
Framleiðandi The Island, DreamWorks, hafnar algerlega kröfum málshöfðenda og segir The Island vera „óháð sköpunarverk“ sem ekki brjóti á höfundarrétti nokkurs manns.
Í The Island leika Johansson og McGregor fólk sem er einræktaðar eftirmyndir ríkra einstaklinga sem sökum veikinda vantar „varahluti“ í sig. Þau búa í stórri, leynilegri nýlendu fjölda slíkra einræktaðra afrita, en sleppa þaðan út og reyna að afhjúpa ólöglegt athæfi stjórnanda nýlendunnar.
Clonus er saga um leynilega nýlendu þar sem einræktaðir einstaklingar eru geymdir ef ske kynni að mannkynið færi að vanta líffæri til skiptanna. Eitt klónið sleppur og reynir að koma upp um tilvist nýlendunnar.