Persónuvernd hefur bannað vöktun með eftirlitsmyndavélum á göngum heimavistar Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki. Taldi Persónuvernd sýnt að eftirlitsmyndavélar á göngum heimavistarinnar bryti í bága við kröfur um meðalhófsregluna. Var lagt fyrir skólayfirvöld að vöktun væri næg í anddyri og við innganga skólans og bæri að taka aðrar eftirlitsmyndavélar niður í skólanum fyrir 1. september næstkomandi.
Það var nemandi í skólanum og íbúi á heimavistinni, sem benti Persónuvernd á málið 13. desember á síðasta ári. Vettvangsrannsókn Persónuverndar leiddi í ljós að 16 myndavélar eru heimavistinni, en þar búa 80-100 manns og séu íbúðir nemanna á heimavistinni skilgreindar sem heimili þeirra.
Sömuleiðis hefur Persónuvernd úrskurðað að notkun falinna eftirlitsmyndavéla í búningsklefum líkamsræktarstöðvar sé ólögmæt enda megi vöktun með leynd aldrei fara fram nema með úrskurði dómara eða samkvæmt sérstakri lagaheimild. Engu skipti þótt myndavélarnar í stöðinni sem um ræðir, hafi verið settar upp og nýttar til að koma upp um þjófnað úr búningsklefunum. Kemur fram í niðurstöðu Persónuverndar að brotið sé alvarlegt enda megi fólk vænta þess að njóta einkalífsréttar í búningsklefum.