Sýknaður af ákæru um að hafa flutt inn tvær flöskur af brennisteinssýru

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is

37 ára gamall Lithái var fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag sýknaður af ákæru um að hafa flutt tvær flöskur af brennisteinssýru hingað til lands. Upptökukröfu ákæruvaldsins var vísað frá dómi. Í dóminum segir meðal annars að sókn málsins hafi öðru fremur einkennst af órökstuddum dylgjum um að ákærði væri bendlaður við alþjóðlega glæpastarfsemi.

Maðurinn var handtekinn í Leifsstöð við komu til landsins 22. ágúst síðastliðinn með tvær áfengisflöskur sem reyndust óvenju þungar. Innihaldið var sent Rannsóknastofu HÍ í lyfjafræði til frekari greiningar og 26. ágúst lagði sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli fram ákæru á hendur manninum.

Í dómi Héraðsdóms segir að niðurstaða málsins ráðist einkum af því hvort lögfull sönnun sé fram komin um að vökvi í umræddum áfengisflöskum sé í raun brennisteinssýra og í öðru lagi hvort sannað sé að ákærði hafi vitað eða mátt vera kunnugt um slíkt innihald flasknanna þegar hann flutti þær til landsins 22. ágúst síðastliðinn.

Samkvæmt 112. gr. laga um meðferð opinberra mála skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að lögreglurannsókn sé lokið, ákveða hvort opinbert mál skuli höfðað eður ei, segir í dóminum. Þar segir að ákæra í málinu hafi fyrst borist Héraðsdómi með símbréfi 26. ágúst kl. 11:32. Sama dag kl. 11:31 virðist sem Jakob Kristinsson, dósent í eiturefnafræði við læknadeild Háskóla Íslands, hafi sent sækjanda tölvupóst, sem sé meðal framlagðra skjala í málinu. „Óháð því hvort ofangreindur tölvupóstur hafi í raun verið sendur örskömmu fyrir eða eftir útgáfu ákærunnar mætti við fyrstu sýn ætla að hann hafi ekki ráðið úrslitum þegar ákvörðun var tekin um málshöfðunina. Er enda hvergi minnst á í póstinum að brennisteinssýra hafi greinst með nokkurri vissu í þeim sýnum, sem Jakob hafði til rannsóknar í félagi við starfsfélaga sinn Ingibjörgu Snorradóttur og ekki er þar vísað til títtnefndra matsgerða,“ segir í dómi Héraðsdóms.

Þar segir að varhugavert þyki að leggja til grundvallar, svo óyggjandi sé, að um brennisteinssýru hafi verið að ræða.

Þá segir í dómi Héraðsdóms að ákærði hafi ekki gert sér far um að leyna flöskunum sérstaklega, til dæmis með því að vefja þær í klæði eða koma þeim fyrir í fríhafnarpoka á Keflavíkurflugvelli innan um tóbak eða annan tollfrjálsan varning. Með því hefði trauðla komið í ljós að flöskurnar voru sviknar, segir í dóminum. „Er ekki ólíklegt að ákærði hefði brugðið til slíkra ráða ef hann hefði verið meðvitaður um að inni-hald þeirra væri ólöglegt, ekki síst ef hann væri meðlimur í skipulögðum alþjóðlegum glæpasamtökum, eins og sækjandi ýjaði sterklega að fyrir dómi.“

Einnig segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness að ákæruvaldið hafi enga tilraun gert að afla sjálfstæðra upplýsinga um hagi og bakgrunn ákærða, til að mynda hvort hann væri kvæntur, fjárhagslega sjálfstæður og starfaði við sölu bifreiða. „Þá var ekki kannað hvort hann væri á sakaskrá fyrir fíkniefnalagabrot eða hefði tengst þess konar afbrotum í heimalandi sínu. Hefur sókn málsins þó einkennst öðru fremur af órökstuddum dylgjum um að ákærði sé bendlaður við alþjóðlega glæpastarfsemi á sviði fíkniefnainnflutnings og amfetamínframleiðslu, sem sé að skjóta rótum hér á landi og að þar fari litháar jafnvel fremstir í flokki, ekki síst einstaklingar frá heimabæ og -héraði ákærða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert