Sameinuðu þjóðirnar bjóða Bandaríkjunum aðstoð sína

Aðbúnaður íbúa í New Orleans fer versnandi með degi hverjum.
Aðbúnaður íbúa í New Orleans fer versnandi með degi hverjum. AP

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (SÞ), hvatti í dag alþjóðasamfélagið til að leggja sitt af mörkum til að hjálpa nauðstöddum sem illa urðu úti eftir eyðileggingu af völdum fellibylsins Katrínar, sem gekk yfir suðurströnd Bandaríkjanna á mánudag. „Tjónið er mun verra en nokkurt okkar gat gert sér í hugarlund,“ sagði Annan í orðsendingu sem hann sendi frá sér í dag.

„Bandaríkjamenn hafa ætíð brugðist við þegar hamfarir hafa orðið í öðrum hlutum heimsins. Þeir hafa nú orðið fyrir miklu áfalli,“ sagði í orðsendingunni. Þar kom einnig fram, að SÞ myndi leggja hönd sína á plóginn við hjálparstarfið.

„Vissulega eru Bandaríkjamenn þeir sem reiðubúnir eru til að takast á við hamfarar af þessu tagi. Áhrifin af fellibylnum eru hins vegar svo miklu stærri, að nauðsynlegt er að flytja hjálpargögn frá öðrum löndum,“ sagði í orðsendingunni. Þá muni SÞ starfa með hvaða öðru landi, sem tilbúið væri að leggja sitt af mörkum, auk hjálparstofnana á borð við Rauða krossinn.

Talsmaður SÞ í Genf sagði teymi sérfræðinga sem meti afleiðingar af völdum náttúruhamfara, sé í viðbragðsstöðu í mörgum löndum og geti verið tilbúin til að halda til suðurstrandar Bandaríkjanna ef stjórnvöld í Washington óski þess. Í teyminu eru sex til átta menn, sem sérhæfðir eru til starfa á hamfarasvæðum. Um er að ræða allt frá læknum til jarðfræðinga.

Jan Egeland, yfirmaður hjálparstarfs SÞ, sendi bréf til Johns Boltons, hins nýja sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, fyrir nokkrum dögum og bauðst hann til að SÞ legði sitt af mörkum til að hjálpa nauðstöddum á hamfarasvæðinu.

Óttast er að nokkur þúsund manns hafi látist í Louisiana, Mississippi og Alabama eftir að fellibylurinn olli mikilli eyðileggingu við suðurströnd Bandaríkjanna á mánudag.

Fellibylurinn og flóð er ekki það eina sem valdið hefur eignatjóni í New Orleans. Sprenging varð í austurhluta New Orleans í morgunsárið og loga eldar í nokkrum húsum í bæjarhlutanum. Slökkviliðsmenn hafa ákveðið að slökkva þá ekki heldur ætla þeir að leyfa þeim að deyja út.

AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert