Davíð hættir sem ráðherra og verður Seðlabankastjóri

Davíð Oddsson á blaðamannafundi í Valhöll í dag.
Davíð Oddsson á blaðamannafundi í Valhöll í dag. mbl.is/Golli

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, tilkynnti á blaðamannafundi í dag að hann hyggist hætta sem ráðherra og þingmaður 27. september og taka við starfi sem formaður bankastjórnar Seðlabankans. Kemur þetta í kjölfar þess að Davíð hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í október.

Davíð sagðist hafa lagt það til við þingflokk Sjálfstæðisflokksins, að Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, taki við embætti utanríkisráðherra, Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, verði fjármálaráðherra og Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður, verði sjávarútvegsráðherra. Hefur verið fallist á þá tillögu. Ásta Möller, varaþingmaður, tekur sæti Davíðs á Alþingi.

Mikil ákvörðun fyrir mig
Davíð sagði á blaðamannafundinum, að hann hefði tekið þá ákvörðun fyrir sitt leyti að verða ekki í kjöri til formanns á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hefst 13. október.

„Þetta er náttúrulega mikil ákvörðun fyrir mig því í henni felst að það verður gjörbreyting á mínu lífi. En þá er þess að gæta, að ég hef verið formaður flokksins á 15. ár og aðeins Ólafur Thors hefur verið formaður flokksins lengur en ég. Þá hef ég verið mjög lengi tengdur stjórnmálum, eða í 31 ár, sem borgarfulltrúi og þingmaður; og síðan sem borgarstjóri og forsætisráðherra, utanríkisráðherra og hagstofuráðherra samfellt í aldarfjórðung. Ég hef verið nokkuð lengi að verki og tel mig þess vegna með góðri samvisku geta tekið ákvörðun eins og þessa, líka vegna þess að flokkurinn minn stendur vel um þessar mundir eins og sést á könnunum þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn og leitt ríkisstjórn mjög lengi. Verk hans eru þess vegna metin og ég held að fyrir formann flokks sé betra að fara við þær aðstæður en aðrar. Ég hef alltaf fengið mikinn stuðning frá mínu flokksfólki á landsfundi og núna síðast alveg sérstaklega einstakan stuðning. Ég kveð því þann vettvang með miklum söknuði," sagði Davíð.

Hann sagði að þessari ákvörðun fylgdu fleiri ákvarðanir og hann hefði þess vegna ákveðið að láta af starfi utanríkisráðherra og hagstofuráðherra á ríkisráðsfundi 27. september næstkomandi. Davíð mun síðan taka við starfi formanns bankastjórnar Seðlabankans 20. október, samkvæmt ákvörðun Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra. Um er að ræða skipun til sjö ára.

Kveður stjórnmálin með söknuði
Davíð sagðist kveðja stjórnmálin með söknuði enda hefðu þau verið líf hans og yndi. Hann væri jafnframt þakklátur stuðningsmönnum sínum og fólkinu í landinu öllu. „Þótt ég hafi ekki átt stuðning allra hef ég reynt að gera mitt besta og tel að ég hafi lokið ákveðnum verkum. Stjórnmálaflokkur lýkur aldrei verki meðan þeir starfa en stjórnmálamenn geta lokið ákveðnum verkhluta og horfið til annarra starfa. Ég tel mig hafa gert það og að minnsta kosti að verka minna sjái víða stað og vonandi í flestum tilfellum hafi þau snúið borgarmálum eða þjóðfélagsmálum í betra horf en ella væri. Um það munu aðrir dæma og síðar," sagði Davíð.

Meiri tími fyrir önnur hugðarefni
Þegar Davíð var spurður á blaðamannafundinum hvers vegna hann veldi að taka við starfi seðlabankastjóra svaraði hann, að þótt hann hefði alltaf talið sig vera latan mann og þurft að beita sig aga til að sinna starfi sæmilega þá væri hann ekki nægilega latur til að hætta að vinna. „Auðvitað verð ég að trúa því að eftir þá miklu reynslu sem ég hef öðlast geti ég komið að gagni í störfum (hjá Seðlabankanum)" sagði Davíð. Sagðist hann telja, að Birgir Ísleifur Gunnarsson, sem hefur sagt af sér embætti seðlabankastjóra, hafi unnið bankanum og landi og þjóð mikið gagn með sínu starfi.

Davíð sagðist telja víst, án þess að gera lítið úr starfi Seðlabankastjóra, að honum muni gefast meiri tómstundir fyrir sig en áður. Hann hefði tekið starf borgarstjóra og síðan ráðherra alvarlega, þrátt fyrir meðfædda leti, og jafnframt hefði hann verið formaður stærsta stjórnmálaflokksins. „Það þýðir að þú ert alltaf á vaktinni sem slíkur, því fylgir mikið af kvöldfundum og geri ráð fyrir að með venjulegu starfi frá 9 til fimm gefist mér meira tóm til að sinna öðrum þáttum sem ég hef áhuga á að sinna. Eins og menn vita þá er ég svoldið fjölþreifinn í ekki algerlega hefðbundnum skilningi," sagði Davíð.

Styður Geir í embætti formanns
Þegar Davíð var spurður um hvern hann vildi sjá sem eftirmann sinn í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins svaraði hann, að menn myndu væntanlega horfa helst til Geirs H. Haarde, varaformanns. „Ætli það verði ekki mín síðustu pólitísku afskipti að kjósa hann," sagði Davíð.

Davíð var spurður hvað helst vekti athygli hans þegar hann liti til baka. Hann svaraði að það vekti helst athygli hve mikið hefði gerst og hve víða hann hefði komið við og komið mörgu í framkvæmd á vettvangi landsmála og borgarmála. „Ég hef auðvitað verið afar fyrirferðarmikill í þessu öllu saman og jafnvel stundum svo að mörgum hefur þótt nóg um og ég vona að ég gleðji þá með minni ákvörðun að hætta í pólitík," sagði Davíð.

Hann sagðist halda, að þótt margir aðrir en hann hefðu komið að málum hefði Ísland gerbreyst til batnaðar á tiltölulega fáum árum. „Hver sem minn hlutur er í því þá er niðurstaðan örugglega sú, að Ísland er miklu fjölbreyttara, öflugra, skemmtilegra, og betra samfélag en það var fyrir 10 árum," sagði Davíð.

Fékk gula spjaldið og vill ekki fá rautt
Davíð var spurður hvort heilsufarslegar ástæður hefðu ráðið þeirri ákvörðun hans að hætta afskiptum af stjórnmálum. Hann sagði svo ekki vera að öðru leyti en því, að hann hefði fengið áminningu um það á síðasta ári, að klukkan tifar og gengur á aðra en skákmenn.

„Auðvitað er það svo, að undanfarið ár hef ég ekki verið á fleygiferð því ég hef þurft að taka tíma í endurhæfingu og aukameðferðir og þótt þær væru ekki erfiðar eða kvalafullar drógu þær, meðan á þeim stóð, úr afli og krafti. Þetta er aðallega áminning; ég tel mig vera kominn með afl og kraft til að sinna nýju starfi en það fer ekki hjá því að ef þú færð svona gult spjald þá horfir þú á það og hagar þér aðeins betur til að fá ekki rautt."

Ekki langt síðan ákvörðunin var tekin
Davíð var spurður hvort langt væri síðan að hann hefði tekið ákvörðun um að hætta í stjórnmálum en hann sagði að það væri ekki svo ýkja langt síðan.

„Ég hef verið að bögglast með hana fyrir brjóstinu og farið svona úr og í gagnvart sjálfum mér. Ég gat ekki rætt þetta við marga því það er þýðingarmikið að svona ákvörðun sé ekki lengi að paufast í loftinu því það er þýðingamikið í stjórnmálum að hafa aga og festu í herbúðunum. Um leið og ég hafði tekið þessa ákvörðun vildi ég ekki bíða lengi með að kynna hana. Ég er sáttur við hana en veit ekki hvort hún er rétt. Kannski veit ég það einhvern tímann en ég tel mig hafa nálgast hana með réttum hætti," sagði Davíð.

Hann sagðist hafa skoðað hug sinn mjög nákvæmlega og reynt að horfa til framtíðar, velt því fyrir sér hvað flokknum og landinu væri fyrir bestu. „Þegar ég hafði horft til allra þessara þátta taldi ég mér fært að taka ákvörðun," sagði Davíð.

Davíð Oddsson í Valhöll í dag.
Davíð Oddsson í Valhöll í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka