Bush fer fram á að SÞ verði lausar undan spillingu

Bush og Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, í höfuðstöðvum samtakanna í …
Bush og Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, í höfuðstöðvum samtakanna í New York í dag. AP

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði við upphaf leiðtogafundar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í New York í dag að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða til að tryggja að spilling ætti sér ekki stað innan samtakanna og að þau gætu staðið skil á gjörðum sínum gagnvart alþjóðasamfélaginu.

Í gær samþykkti allsherjarþing SÞ drög að umbótum á starfsemi samtakanna. „Sameinuðu þjóðirnar verða að vera öflugar og skilvirkar, lausar við spillingu og þær verða að geta staðið skil á gjörðum sínum gagnvart því fólki sem þær þjóna,“ sagði Bush. „Sameinuðu þjóðirnar verða að stuðla að samstöðu og framfylgja sjálfar þeim ströngu kröfum sem þær gera til annarra. Margar af þeim umbótum sem gera þarf á stofnuninni verða að fela í sér aukna yfirsýn yfir innri starfsemi SÞ, tillögur um sparnað og þær verða að tryggja að dýrmæti kraftar nýtist í það sem til er ætlast,“ sagði forsetinn.

Bush sagði einni í ávarpi sínu að nauðsynlegt væri að herða sameiginlegar aðgerðir gegn hryðjuverkum á heimsvísu og „útlagastjórnum“ sem styddu hryðjuverkamenn og reyndu að verða sér úti um gereyðingarvopn. Bush taldi upp hryðjuverkaárásir sem gerðar hafa verið í heiminum og sagði: „Af þessu má draga skýran lærdóm. Það fæst ekkert öryggi með því að líta undan eða láta sem kúgun og harðrétti gagnvart öðrum sé ekki til.“ „Hryðjuverkamennirnir verða að vita að heimurinn stendur sameinaður í baráttu sinni gegn þeim,“ sagði forsetinn.

Bush ræddi einnig um viðskiptamál. Hann sagði að Bandaríkin væru reiðubúin að afnema alla tolla, styrki og aðrar hindranir sem kæmu í veg fyrir frjálst flæði vöru og þjónustu í heiminum. Þau færu hins vegar fram á að önnur ríki gerðu slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert