Að minnsta kosti 160 manns fórust og 570 særðust í 12 sprengjuárásum í Bagdad, höfuðborg Íraks, í dag. Hryðjuverkasamtökin al-Qaeda lýstu öllum árásunum á hendur sér í yfirlýsingu sem birtist á netsíðu í dag. Segir í yfirlýsingunni að árásirnar séu hefnd fyrir árásina á uppreisnarmenn í borginni Tel Afar, sem hófst um helgina.
Fyrsta árásin sem gerð var í morgun var sú mannskæðasta, en að minnsta kosti 112 manns fórust og yfir 200 særðust í henni. Árásarmaðurinn ók bíl að hópi manna, sem höfðu safnast saman í þeirri von að fá daglaunavinnu, og sprengdi síðan bílinn í loft upp.
Á næstu klukkutímum fylgdu að minnsta kosti 11 árásir í kjölfarið sem kostuðu að minnsta kosti 48 manns lífið. Að auki voru 17 menn teknir af lífi í þorpi norður af Bagdad í morgun.