Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í morgun, að ákæru í Baugsmálinu svonefnda skuli vísað frá dómi í heild. Jón H. B. Snorrason, saksóknari embættis ríkislögreglustjóra, sagði við fréttamenn að þetta væri ekki áfall og hann hefði búið sig undir að þetta gæti orðið niðurstaðan. Næsta skref væri að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar og krefjast þess að að allir ákæruliðirnir 40 verði teknir fyrir.
„Þessi niðurstaða verður kærð til Hæstaréttar, það verður næsta skref,“ sagði Jón við blaðamenn eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp. Spurður um hvort kært yrði í dag sagði Jón að þriggja sólarhringa frestur væri veittur til þess að kæra úrskurðinn.
Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, sagði ljóst, að þessi niðurstaða héraðsdóms að vísa málinu frá í heild sinni væri í samræmi við það álit, sem kom fram í bréfi dómenda, að verulegir annmarkar væru á ákærunni. Því hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu, að ekki væri annað hægt en vísa málinu frá í heild sinni.
„Það kemur fram í forsendum úrskurðarins að þeir telji að þetta sé svo stór hluti af málinu sem sé haldinn þessum annmörkum að þeir telji sér skylt að vísa málinu frá í heild sinni.“
Spurður um viðbrögð við þeirri yfirlýsingu saksóknara að kæra málið til Hæstaréttar, sagði Gestur að verjendur myndu tjá sig um málið gagnvart réttinum. Aðspurður um þá þá fullyrðingu ákæruvaldsins að enginn vafi sé á því að hægt sé að leggja fram nýja ákæru í málinu, sagði Gestur að verjendur teldu verulegar takmarkanir á því vegna lagareglna sem um það giltu og vísaði hann til reglna um meðferð opinberra mála.
„Það eru reglur um framhaldsákærur og slíkt sem takmarka mjög slíkar heimildir,“ sagði Gestur.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur er farið yfir 18 ákæruliði af 40 þar sem talið er að annmarkar séu á ákæru. Segir síðan, að samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála beri að greina í ákæru hvert það brot sé sem ákært sé út af, hvar og hvenær það sé talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu. Í þessu felist að sakargiftir í ákæru þurfi að koma þar fram og þær þurfi að vera svo skýrar og ótvíræðar að ekki þurfi getum að þeim að leiða eða að deila um hverjar þær séu.
Í þessu vegi þyngst sjálf verknaðarlýsingin en hin atriðin, sem talin séu upp í lagaákvæðinu, skipti minna máli. Samkvæmt íslenskri dómaframkvæmd og áliti fræðimanna sé þannig talið nauðsynlegt að hverju broti sé lýst allnákvæmlega í ákæru og á þann hátt sem sönnunargögn málsins séu talin benda til að það hafi gerst. Verði að lýsa því hvernig ákærði sé talinn hafa með athæfi sínu gerst sekur um það brot sem um ræði og þá þannig að atburðarásin falli að efnislýsingu refsilagabrotsins og skýringu refsiréttarins á því.
Þetta helgist m.a. af því að sakborningi sé nauðsyn á því að fá gerla að vita hvaða athæfi honum sé gefið að sök, svo að hann geti varið sig, og ennfremur af því að dómari verði að geta gert sér svo glögga grein fyrir efni máls, að hann geti lagt á það dóm. Sé ákærunni verulega áfátt að þessu leyti. Reyndar sé hún ekki sem gleggst í ýmsum minni atriðum. Þykja ágallarnir varða frávísun. Þar sem um sé að ræða verulegan hluta ákærunnar að ræða verði ekki hjá því komist að vísa málinu í heild frá dómi. Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari, las einnig ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun verjenda sakborninga í málinu. Samkvæmt því á ríkið að greiða Gesti Jónssyni 10,2 milljónir króna, Einar Þór Sverrissyni, verjanda Jóhannesar Jónssonar, 3,5 milljónir, Kristínu Edwald, verjanda Kristínar Jóhannesdóttur, 3,7 milljónir, Jakobi R. Möller, verjanda Tryggva Jónssonar, 1,4 milljónir, og Þórunni Guðmundsóttur, verjanda Stefáns Hilmarssonar og Önnu Þórðardóttur, 2,9 milljónir króna.
Í úrskurðinum kemur fram að Andra Árnasyni, sem var verjandi ákærða Tryggva í lögreglurannsókn málsins, verið greidd þóknun fyrir þann starfa sinn, 2,3 milljónir króna, og Helga Jóhannessyni, sem var verjandi Jóns Ásgeirs framan af í lögreglurannsókninni, hafi sömuleiðis verið greidd þóknun fyrir starfann, 563 þúsund krónur.