Hvíta húsið ætlar að ganga á undan með góðu fordæmi og spara orku

Bílalest George W. Bush Bandaríkjaforseta verður væntanlega styttri framvegis og aðstoðarmenn hans eiga að muna eftir að slökkva ljós og á tölvum og prenturum til að spara orku í kjölfar fellibylsins Rítu, sagði talsmaður forsetaembættisins í dag. Bílum sem flytja fréttamenn er fylgja forsetanum hefur verið fækkað um einn og starfsmenn embættisins deila bílum með gestum forsetans.

Í gær hvatti Bush landa sína til að draga úr akstri til að spara bensín í ljósi þess að birgðir eru nú minni í kjölfar óveðursins. Talsmaður Bush, Scott McClellan, sagði að opinberir starfsmenn væru hvattir til að deila bílum, nota almenningssamgöngutæki og reyna ef hægt væri að halda símafundi í stað þess að fara akandi á fundarstað.

Bush kom til Beaumont í Texas í dag, sem varð illa úti í fellibylnum, og er þetta sjöunda ferð Bush til hamfarasvæðanna. Þrátt fyrir tal um orkusparnað var forsetanum ekið frá flugvél sinni - að vísu í styttri bílalest en venjulega - tæpan kílómetra á fyrsta staðinn sem hann heimsótti í ferðinni.

Fréttamaður AFP segir að svo virðist sem Rítu hafi tekist það sem hvorki umhverfisverndarsinnum né orkukreppunni í Kaliforníu 2001 hafi tekist, þ.e. að fá Hvíta húsið til að biðja Bandaríkjamenn að aka minna. Fyrir fjórum árum var þáverandi talsmaður Bush, Ari Fleischer, spurður hvort embættið teldi að Bandaríkjamenn ættu að draga úr orkunotkun sinni, og svaraði hann: „Alls ekki. Lífsstíll Bandaríkjamanna nýtur blessunar og við eigum nægar auðlindir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert