Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur sent frá sér ályktun þar sem furðu er lýst á vinnubrögðum, sem viðhöfð voru við val á fulltrúum Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, á þing SUS í Stykkishólmi, sem hefst á morgun.
Í ályktuninni segir, að stjórn Heimdallar hafi synjað umsóknum frá mörgum af virkustu meðlimum ungliðahreyfingarinnar um að vera aðalfulltrúar á þingi SUS. Meðal þeirra sem ekki séu aðalmenn á þinginu, þrátt fyrir umsókn, séu varastjórnarmenn í SUS og formaður utanríkisnefndar sambandsins, sem starfa muni á þinginu.
„Stjórn SUS harmar þessa ákvörðun stjórnar Heimdallar og lýsir yfir furðu sinni á þessum vinnubrögðum. Það er grundvöllur fyrir blómlegu og kröftugu starfi í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins að það fólk sem starfar af heilindum, metnaði og þrótti fyrir hreyfinguna fái að taka þátt í atburðum á hennar vegum, ekki síst á sambandsþingum. Stjórn SUS telur því að með ákvörðun um að synja ofangreindum aðilum um setu á þinginu hafi stjórn Heimdallar vegið að því mikilvæga starfi sem fram fer í Sambandi ungra sjálfstæðismanna," segir í ályktun stjórnar SUS.