Lögreglan í Þýskalandi biður ökumenn að gæta sín á því að ef þeir leggja sér „Fishermens Friend“ til munns kunni þeir að verða teknir fyrir meinta ölvun við akstur.
Þetta kom í ljós þegar 24 ára ökumaður var tekinn fyrir meinta ölvun í München. Þegar hann var látinn blása í blöðru benti allt til að áfengismagnið í blóði hans væri yfir leyfilegum mörkum, en þegar blóðsýni var tekið reyndist ekki vottur af áfengi í því.
Ökumaðurinn var látinn laus eftir að hafa játað að það sterkasta sem hann hefði lagt sér til munns væru hálstöflurnar góðkunnu, Fishermans Friend.
Ananova hefur eftir réttarlækni að bragðefni í töflunum virki á sama hátt og áfengi þegar blásið er í blöðru lögreglunnar. Prófanir hefðu sýnt að aðeins þrjár töflur dugðu til að ökumaður virtist vera með þrefalt meira áfengismagn í blóðinu en heimilt er í Þýskalandi.