Handskrifað tónverk eftir Ludwig van Beethoven fannst á guðfræðistofnun í útjaðri Philadelphia í Bandaríkjunum í sumar og er talið að um sé að ræða einhverja merkilegustu tónlistarlegu uppgötvun í áraraðir. Það var Heather Carbo, bókasafnsfræðingur hjá Palmer guðfræðistofnuninni sem fann tónverkið í júlí þegar hún var að taka til í skjalasafni í stofnuninni.
Um er að ræða verkið „Grosse Fuge“ og er handritið 80 blaðsíður, að því er fram kemur í The New York Times í dag. Handritið verður boðið upp hjá Sotheby's í London þann 1. desember næstkomandi. Talið er að allt að 2,6 milljónir dollara geti fengist fyrir það, eða um 160 milljónir íslenskra króna.
Hægt verður að berja handritið augum hjá Sotheby's í New York dagana 16. til 19. nóvember.