Óttast að fuglaflensan hafi borist til Makedóníu og Rússlands

Bóndakona heldur á dauðum hænsnfuglum í þorpinu Germijan í suðurhluta …
Bóndakona heldur á dauðum hænsnfuglum í þorpinu Germijan í suðurhluta Makedóníu í gær. AP

Talsmaður Evrópusambandsins greindi frá því í dag að grunur leiki á að fuglaflensan hafi greinst í fuglum í Makedóníu, og að hún væri þar með að breiðast víðar um Evrópu. Sýni hafa verið send til Englands þar sem þau verða rannsökuð sérstaklega á rannsóknarstofu á vegum Evrópusambandsins. Þá hafa hundruð fugla fundist dauðir í Rússlandi og er óttast að flensan hafi borist þangað.

Fuglarnir hafa fundist í Tula héraði, um 200 kílómetra suður af Moskvu. Ef um fuglaflensu er að ræða verður þetta í fyrsta skipti sem flensan greinist vestur af Úralfjöllum, sem markar skil á milli evrópska og asíska hluta Rússlands.

Þá eru sérfræðingar á vegum Evrópusambandsins á leiðinni til Grikklands þar sem þeir munu greina afbrigði fuglaflensunnar sem þar hefur fundist.

Heilbrigðisyfirvöld innan ESB hafa lýst því yfir að fyrir áramót verði haldin æfing þar sem líkt verður eftir mannskæðum fuglaflensufaraldri um Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert