Konur fjölmenntu á Silfurtorg á Ísafirði í dag til að minnast þrjátíu ára afmælis kvennafrídagsins, þegar konur sýndu hvers virði þeirra framlag til atvinnulífsins í landinu er með því að leggja niður störf. Haldið var í kröfugöngu um bæinn og sungnir baráttusöngvar. Ófáar konur voru með kröfuspjöld þar sem farið var fram á jafnrétti.
Gengið var að Alþýðuhúsinu þar sem haldin var baráttuhátíð rétt eins og fyrir 30 árum þegar hátíðardagskrá fór þar fram. Boðið var upp á erindi, upplestur, tónlist, ljóð, ræður og kaffiveitingar. Markmið dagsins nú sem fyrr er að sýna fram á verðmæti vinnuframlags kvenna fyrir íslenskt efnahagslíf, en hvergi í heiminum er atvinnuþátttaka kvenna jafn mikil og hér á landi. Fjölmargir vinnuveitendur lýstu stuðningi við kvennafríið og gáfu starfskonum sínum frí.
Hópur ísfirskra kvenna tók það að sér að gangast fyrir baráttudagskrá í tilefni dagsins. Þær voru; Bryndís Friðgeirsdóttir, Guðfinna Hreiðarsdóttir, Guðrún Sigurðardóttir, Helga Dóra Kristjánsdóttir, Ingunn Ósk Sturludóttir, Jóna Benediktsdóttir, Karítas Pálsdóttir, Matthildur Helgadóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Sigríður Ragnarsdóttir.
Á Þingeyri komu um fimmtíu konur komu saman á Dúddakaffi á Þingeyri í dag til að minnast þess að 30 ár eru liðin frá kvennafrídeginum svokallaða. Konurnar drukku saman kaffi, borðuðu kökur og þáðu pítsur og kók frá útgerðarfélaginu Vísi sem rekur fiskvinnslu á Þingeyri. Nokkrir karlar tóku þátt í fögnuðinum en virtust kunna illa baráttusöngva kvennanna og áttu því erfitt með að taka undir þegar þær stóðu upp og hófu söng.