Tveir 14 ára unglingar voru fluttir á sjúkrahús með skotsár í bænum Ivrea á Norður-Ítalíu í dag. Táningarnir voru á leið milli húsa með vinum sínum í grímubúningum á hrekkjavökuhátíð í bænum. Þegar þeir bönkuðu upp á hjá lögreglumanni á eftirlaunum hóf hann skothríð að þeim.
Að sögn lögreglunnar í Ivrea eru drengirnir ekki í lífshættu. Lögreglukona sagði í samtali við fréttastofuna Associated Press, að lögreglumaðurinn fyrrverandi, sem er sjötugur, hafi verið handtekinn og ákærður fyrir tilraun til morðs.
Maðurinn sakaði börnin um að hafa hent púðurkerlingum í átt að útihurð hans. Hafi hann skotið að þeim úr byssu sinni til að hræða þau.
„Hann áttaði sig ekki á því að hann særði þau. Hann býr einn og hefur orðið fyrir stríðni áður. Börn gera grín að honum vegna þess að hann býr einn,“ sagði Paola Capozzi, lögreglukona í bænum, en bætti við, að vissulega réttlæti það ekki skotárás hans að þeim.
Hrekkjavaka hefur notið sívaxandi vinsælda á Ítalíu á síðastliðnum árum en siðurinn, sem felst í því að fara á milli húsa og biðja um sælgæti, barst þangað frá Bandaríkjunum.