Blair varar þingmenn við því að þeir stefni öryggi landsins í hættu

Breskir lögreglumenn gættu St. James´Park garðsins í miðbæ Lundúna, gráir …
Breskir lögreglumenn gættu St. James´Park garðsins í miðbæ Lundúna, gráir fyrir járnum. Reuters

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, varaði breska þingmenn við því í dag að stefna öryggi landsins í hættu með andstöðu sinni við frumvarp ríkisstjórnarinnar til forvarnar hryðjuverkum. Ákvæði þess um að lögreglan fái heimild til þess að halda grunuðum hryðjuverkamönnum, eða þeim sem grunur leikur á að tengist hryðjuverkastarfsemi með einum eða öðrum hætti, í allt að 90 daga gæsluvarðhaldi án ákæru, hefur mætt mikilli andspyrnu þingmanna. Segist Blair þó enn halda að hægt sé að ná samkomulagi um ákvæðið, þrátt fyrir að það hafi verið dregið til baka á þingi, og ná sáttum um ákveðinn dagafjölda gæsluvarðhalds án ákæru.

Verður fjallað um frumvarpið í neðri málstofu breska þingsins nú á miðvikudaginn og mun Blair leitast við að ná sáttum um dagafjölda gæsluvarðhalds, allt frá 28 dögum að 90. Ríkisstjórnin segir 90 daga hámarksvarðhald nauðsynlegt með tilliti til þjóðaröryggis en þingmenn Frjálslyndra jafnaðarmanna (e. Liberal Democrats) vilja að hámarksdagafjöldi gæsluvarðhalds án ákæru verði 14 dagar. Íhaldsmenn vilja hins vegar hafa dagana 28 að hámarki.

Blair greindi frá því, á mánaðarlegum fjölmiðlafundi sínum í dag, að til væri það fólk í Bretlandi sem „í þessum töluðum orðum væri að undirbúa hryðjuverk". Sagði hann rökin fyrir 90 daga gæsluvarðhaldi án ákæru koma frá lögreglunni, hún segði það bráðnauðsynlegt til þess að fylgja fram rannsóknum sínum og fyrirbyggja hryðjuverk. Nú þyrfti ríkisstjórnin að klára breytingartillögu sína fyrir þingfund á miðvikudag. Það væri ekki samkvæmt vilja ríkisstjórnarinnar að fækka dögunum en hún þyrfti að ná sátt um málið á þingi.

Stjórnarandstæðingar úr röðum Breska íhaldsflokkinn hafa bent á andstöðu Blairs við hryðjuverkalög á árum áður, t.a.m. 1996 þegar hann greiddi atkvæði gegn frumvarpi um varnir gegn hryðjuverkum á Norður-Írlandi. Greindi breska ríkisútvarpið BBC frá þessu á fréttavef sínum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert